Uglurnar mínar

Eins og sum ykkar hafa kannski áttað sig á, þá bý ég í sveit. Fyrir utan stofuglugga okkar er snýr í suður er lítill grösugur garður vel afgirtur, ekki stór en greinilega orðinn eftirsóttur fyrir erlenda sumargesti að heimsækja og búa sér heimili í þennan stutta sumartíma okkar og skilja eftir að launum fallegar fjölgunarkörfur úr stráum, mosa og öðru hlýlegu efni. Vel að merkja, bílastæðið mitt var og er, innan við tveggja metra fjarlægð frá einni svona "fjölgunarkörfu", það eina sem virtist trufla íbúana var hve seinn þessi sauður á þessu hávaða skrapatóli var lengi að koma sér í burtu. Var það ævinlega tilkynnt með afar virðulegum hávaða og vængjaslætti. "Halló, þú maður ...hér búum við, reyndu að taka tillit...."!

En, tilefni þessara skrifa er ekki þetta, þetta var bara formáli. Þegar ég kom heim úr vinnunni eitt kvöldið í vikunni nokkru eftir miðnætti, situr ugla já, ugla á grindverki þessa litla garðs okkar í um þriggja metra fjarlægð frá mér er ég stíg út ú bílnum. Það er ekkert nýtt fyrir mig að sjá uglu, bara ekki svona nálægt og alls ekki svona "heima hjá sér" eins og hún virtist vera þessi. Branduglur eru ekki óalgengar í mínu nágrenni, ég sé þær nokkuð oft en þessi ugla vakti verulega athygli mína. Var ég nú orðinn vitlaus? Ég staldraði því við. Fór ekki inn, heldur beið. Hún fór ekki langt. Hún sveif aðeins örfáa metra í burtu, kom svo aftur, svo nálægt höfði mínu að mér varð ekki um sel. Ég stóð bara þarna eins og þvara og hugsaði að mig minnir upphátt; "Snæugla, getur ekki verið ...-en þessi er hvít, snæuglur eru hvítar"! Ég sofnaði seint og um síðir út frá þessari upplifun og vangaveltum.

Kvöldið eftir endurtekur þetta sig nema nú situr "Snæuglan" mín á ljósastaurnum næst húsinu og hreifir sig ekki þó ég fari út úr bílnum og gangi nær til að sjá hana betur. Er ég loks hef mig inn, krafðist hundurinn minn tafarlausrar útgöngu, og við hundsum ekki slíkt. Út hann fór. Til að tja, hvað gera hundar ...úti?   ...Og þá gerðist það, uglan mín brjálaðist, svona kvikindi þoldi hún greinilega ekki, þvílík læti og skrækir. Mér stóð nú bara ekki á sama, eins gott að mér var ekki sjálfum mál á þessum tímapunkti. Og hvað gerist næst, já, góðan daginn, hún sótti aðstoð, þær voru orðnar tvær? Tvær snæuglur, ómögulegt. Ég bara góndi. Hvað hundinn varðaði virtist hann bæði hafa misst sjón og heyrn gagnvart þessum látum, kláraði bara sitt og fór inn að sofa. Það gerði ég líka fyrir rest. Ég þurfti reyndar að gefa mér svolítinn tíma í að plokka skegghýjunginn á hökunni lausan úr bringuhárunum en sofnaði fyrir rest.

Ég var held ég ekki búinn að sofa nema í um klukkustund er ég vaknaði upp með þetta allt á hreinu. Ég er enginn fræðingur í uglum en snæuglur geta þetta ekki hafa verið. Þar sem ég hef aldrei séð nýfleyga brandugluunga, þá hlýtur þetta bara að hafa verið í fyrsta skipti.

Hvað er svo hægt að læra af þessu jú, hvernig væri til dæmis að hafa tiltæka myndavél?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband