Fyrir nokkru var farið að taka grjót aftur úr námunni hérna á milli bæjanna. Við héldum reyndar að búið væri að loka þessari námu, alla vega að öll vinnsla á grjóti þaðan væri liðin tíð. Svo virðist ekki vera, enda hefur aldrei verið gengið þannig frá henni að svo lýti út sem framkvæmdum þarna sé lokið.
Við höfum í sjálfu sér ekkert um það að segja hvernig aðrir nýta auðlindir á jörðum sínum, ef í þessu tilfelli er um "auðlind" að ræða, nema það hafi að einhverju leiti bein áhrif á vort eigið daglaga líf og störf ásamt ekki síst, búsetugæðum okkar á jörðinni, yfirleitt.
Auðvitað kosta svona flutningar á gríðarlegu magni af grjóti, mikla umferð þungra vörubíla. Vandamál þeirra er svo hvaða leið þeir eiga að velja sér með hlössin sín. Að sjálfsögðu völdu þeir að fara sem mest eftir hringveginum og nýttu sér þar af leiðandi afleggjarana frá bæjunum sitt hvoru megin við námuna til skiptis til að komast inn á hann.
Eftir ábendingu frá íbúa í grenndinni, mætti flokkur frá Vegagerðinni og setti 7t. öxulþunga -takmörkunarskilti við afleggjarana heim að þessum bæjum. (Auðvitað var ekkert vit í að þungaflutningar, 10-30 tonna vörubílar væru að þvælast þetta á léttbyggðum vegum með örþunnri klæðningu). Þetta hafði að sjálfsögðu í för með sér að allir flutningarnir fóru í staðin eftir gamla malarveginum fyrir neðan bæinn okkar. Vegurinn sá er nú ekki lengra frá húsi en um 60 metrar og þar sem aðal vindáttir á svæðinu eru austlægar, stóð rykmökkurinn frá umferðinni þarna um, beint á húsin. Hitt var slæmt en þetta var eiginlega öllu verra.
Einhvernvegin varð að bregðast við. Við tókum því þá ákvörðun að leggja bíl þvert yfir veginn og stöðva þessa umferð til að ná fram viðbrögðum frá forsvarsmanni þessara flutninga. Þetta virkaði. Fyrsti bílstjórinn sem ekki komst leiðar sinnar kallaði til yfirmann sinn sem mætti umhendis, kynnti sér aðstæður og sá og skyldi að við þetta væri ekki búandi af okkar hálfu. Hann ætlar því að sjá til þess að vegurinn verði bleyttur í framtíðinni ef náttúran sér ekki til þess sjálf. Ekkert vandamál.
Þessi aðgerð var í raun ekki hugsuð sem "leiðinda" mótmæli heldur einföld aðferð til að ná eyrum viðkomandi, raunar með afgerandi hætti, til að leysa málið. Það tókst í sátt og samlindi með skilningi allra viðkomandi aðila og allt í góðu. Auðvitað væri best ef engin umferð væri um þennan veg.
Og þá kem ég að því.
Þegar nýji þjóðvegurinn var lagður kom til tals að nýta þann gamla sem reiðveg. Því var alfarið hafnað af bændum er áttu jarðir þarna að sem sá að við lagningu hins nýja yrði mikið meira næði frá umferðinni og því væri langtum best að leggja þann gamla bara alveg niður, þó með þeirri skilgreiningu að hann yrði eftir sem áður, vegur eða "neðrileið" á milli bæjanna. Að því var gengið. Það er því bara leiðinlegt að umferð skuli vera komin á að nýju.
Svo er það annað sem ég hef verið að skoða varðandi þennan gamla veg. Hver á hann? Land undir nýja vegi í dag er keypt. Landið undir þann gamla var það ekki. Samkvæmt því eigum við landeigendur meðfram honum hann. Ekki rétt? Hvað varðar afleggjara heim að sveitabæjum eru fyrstu fimmtíu metrarnir í einkaeigu hvers bæjar. Svona er nú það.
Bloggar | 15.4.2008 | 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áður fyrr var þeim sem ungir voru að árum stundum sagt að nýfædd börn kæmu úr stórum steinum, uppsprettum, ám eða vötnum sem voru í nágrenni heimilisins.
Seinna var svo farið að segja börnum að systkinin nýfæddu hefðu verið keypt úti í búð eða á sjúkrahúsinu. Ef nýfædd barn grætur mikið er það merki um gáfur eða sönghæfileika, að minnsta kosti hraustleikamerki.
- Barn sem mikið horfir upp fyrir sig verður skammlíft, langlíft það sem mikið hnerrar.
- Ef barn breiðir út hendurnar svo að sér í lófana verður það einfeldingur en steyti barnið hnefana verður það hyggið.
- Ef barn fæðist með tennur þykir það benda til skáldskapargáfu. Þá er sagt að það hafi skáldagemlur. Pétursspor geta bent til hins sama. Hrukkur á enni er enn eitt skáldskapareinkennið. Hátt enni er gáfnamerki og sveipir í hári boðagott en spékoppar bera vitni um glaðlyndi. Ef barn er sambrýnt er það vernd gegn öllu illu. Litur augna getur einnig sagt sína sögu. Gráeygð börn eru grimmlynd, móeygð mislynd og bláeygð blíðlynd.
- Þeir sem snemma muna eftir sér verða langlífir.
Til verndar nýfæddu barni
Þjóðtrúin gerir ráð fyrir því að hvarvetna í kringum okkur geti leynst ill öfl af margvíslegu tagi sem sífellt sitja um að gera mönnum eitthvað til miska eða reynda að ná þeim á sitt vald. Þetta á ekki síst við óskírð börn og þess vegna verður að gæta þeirra sérstaklega vel. Þjóðtrúin kennir okkur að eftir að börn hafa tekið tennur sé þeim nokkurn veginn óhætt.
Hætta var á að huldukonur skiptu á vöggubörnum og gömlum og afskræmdum
körlum eða kerlingum úr sínum hópi. Börn sem þannig hafði verið skipt á
voru nefnd umskiptingar. Þau voru mjög ódæl, þroskuðust ekki eins og önnur
börn og voru einkennileg í útliti, oft eins og gamlingjar.
Víða um heim finnst sú hjátrú að setja eitthvað til verndar börnum í eða
hjá vöggum. Algengastir eru hlutir úr járni, t.d. nálar, skeifur, skæri,
krossar, verndarsteinar eða guðsorð. Nú á dögum eru krossar algengastir
verndargripir sem kornabörnum eru gefnir, t.d. vinsælar skírnargjafir.
Það má ekki ...
Sagt var að börn sem blótuðu eða skrökvuðu að svartur blettur, blöðrur eða
bólur kæmu á tunguna á þeim.
Börnum var bannað að sveifla priki kringum sig eða henda steinum út í
loftið því þá gátu álfar eða aðrar huldar verur orðið fyrir þeim.
Börn mega ekki skrifa áður en þau læra að þekkja stafina eða teikna myndir
sem þau þekkja ekki því það geta orðið galdrastafir, svo magnaðir að þau
skrifi sig til skrattans.
Ekki mega börn ganga aftur á bak því þá ganga þau móður sína í gröfina,
ekki ganga með hendur fyrir aftan bak, þá teyma þau skrattann, ekki velta
sér ofan brekku, það ruglar heilann eða veldur garnaflækju.
Ef börn gretta sig framan í spegil, sprengja pappírspoka, sitja auðum
höndm, skella í góm, spila við sjálf sig eða hafa í frammi aðra ósiði er
sagt að þau skemmti skrattanum og það ber þeim auðvitað að forðast.
Um miðja 20. öldina var börnum bannað að blikka ljósum í húsum vegna þess
að þá kæmu Rússarnir
Lengi var til siðs að signa börn eftir að búið var að lauga þau og færa
móður sinni. Þá hefur einnig tíðskast fram á okkar daga að signa börn
þegar þau eru þvegin, á þeim skipt eða þau færð í nýja flík.
Önnur hjátrú um börn
Ekki skal gefa börnum lifur fyrr en þau geta sagt lifur því annars geta
þau ekki sagt l. Sé þeim gefinn nautsheili að borða verða þau nautheimsk.
Ef börn leika sér að því að kveikja í hríslum eða smáspýtum og veifa þeim
til og frá pissa þau undir næstu nótt.
Ekki má sýna ungum börnum spegil því þá gróa ekki saman á þeim hausamótin.
Börn hætta að vaxa;
- ef klipptar eru á þeim neglur eða hár fyrsta árið
- ef þeim er hleypt út um glugga og ekki tekin inn um hann aftur
- ef snældu er snúið niður í höfuð þeirra
- ef þau klippa mat sinn með skærum
- ef þeim er gefin endasneið af smjöri að borða
- ef þau eru dregin í gegnum vefstól
- ef þau borða krít
- ef þau borða kertavax
Heimild: Sjö - níu - þrettán. Hjátrú Íslendinga í daglega lífinu.
Símon Jón Jóhannesson tók saman. 1995. Vaka - Helgafell
Bloggar | 14.4.2008 | 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mér rifjaðist upp skemmtileg saga, úr fyrra bindi endurminninga Agnars Kofoed Hansen heitins, fv. lögreglstjóra og síðar flugmálstjóra. *(ss;Jóh. H.).
__________________________________
Ég fór einu sinni á Þingvöll með kínverskan sendimann frá Alþjóða-flugmálastofnuninni. Hann hét Chiang og var ættaður frá Hunan-fylki. Á leiðinni austur gerði ég gesti mínum nokkra grein fyrir eðli íslenskrar menningar. Ég sagði honum til dæmis að upp til sveita gæti hann rekist á sjálflærða bændur mælta á erlendar tungur og aðra sem skrifuðu um stærðfræði og náttúrufræði í virt erlend vísindatímarit og þýddu bækur úr rússnesku og grísku.Kínverjinn brosti vantrúaður.Við gengum til Lögbergs í fylgd bóndans á Þingvöllum.Taktu nú eftir, hvíslaði ég að vini mínum, Chiang. Hér er í för með okkur dæmigerður íslenskur bóndi. Athugull og greindarlegur. Reyndu að ávarpa hann á kínversku. Hann hefur áreiðanlega gaman af því.Chiang tók mig ekki alvarlega, brosti samt kurteislega. Gerðu það fyrir mín orð, bað ég. Ávarpaðu hann á kínversku. Chiang hló vandræðalega - lét svo tilleiðast í gamni. Kínverska hljómaði á Lögbergi. Bóndi lagði við hlustir, horfði til himins, hugsaði sig um andartak, -laut svo að Chiang og svaraði á kínversku: Suður-Hunan-mállýskan er nú ekki mín sterka hlið, þótt ég skilji hana vel. En það er gaman að fá tækifæri til að tala mál yðar.Ég gleymi aldrei hvernig Chiang varð við. Hann varð allur stífur, líkt og hann steinrynni; hann varð þannig í framan að ég hélt að hann væri að fá slag - og mér varð ekki um sel. -Bóndi á Þingvöllum var þegar þetta gerðist, séra Jóhann Hannesson, lengi trúboði í Kína." *(Jóhannes Helgi).
Bloggar | 13.4.2008 | 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er ekki vegna þess að ég hafi ekki skoðanir, heldur þvert á móti, þær skoðanir sem ég hef eru nefnilega svo innilega réttar að það hálfa væri nóg. Þar sem ég er þekktur fyrir að forðast allt "vandræða-vesen", get ég bara ekki staðið í því að vera að leiðrétta skoðanavillur annarra, daginn út og inn. Hef bara ekki tíma. -Ég nota bara snilldar svar eiginmannsins sem náði að lifa til hárrar elli í sambúð með konu sinni, til þess að gera vandræðalaust, og svara bara þegar á að "bögga" mig eitthvað : Já, elskan , þetta er alveg rétt hjá þér". (Verð að taka það fram að kellingin sú, fattaði þetta aldrei).
Ok, ég skal bæta aðeins úr þessu.
Skoðun # 1
Ég á skoðanabróður. Hann heitir Berlusconi.
Hann er einhver fjölmiðla kóngur á Ítalíu, gott ef hann var ekki líka forsetisráðherra hérna áður fyrr, og vill verða aftur, nema hvað?, hann er bara snilli. Hann sagði bara það sem allir hafa vitað og séð lengi, líka þú, ... Hann sagði eitthvað á þá leið, að fólk á vinstri væng pólitíkurinnar væri ekki eins fallegt og það á hægri vængnum. (Hann skírskotaði þar víst sérstaklega til kv. )......."...?
Þarf virkilega að skíra þetta nánar? Hafið þið skoðað samsetningu fulltrúa Reykjavíkur í borgarstjórn, aðal og/eða vara, á móti hinum? Bara spyr!
Skoðun # 2
Þurfti þetta að henda MIG ?
Nei, ekki endilega, nema hvað, ég var bara að fara í leikhús , ...í Rvk.
Akkúrat þennan sama dag,, þennan sama dag og vörubílstjórar hótuðu að teppa allar leiðir til borgarinnar; Vesturlandsveg, Suðurlandsveg og Reykjanesbraut. Bara loka fyrir Reykjavík, alveg. Inn og út. Og mig.
Ég hugsaði þetta smá stund en tók síðan yfirvegaða ákvörðun. Bara bíða,. Þetta gengur yfir, eins og alltaf. Bíðum bara , þetta gengur yfir, íslenska " hugarfarið" , í praktís.
Við vorum að ræða þetta, nokkrir vinnufélagar yfir Pizzu, um daginn. Við komumst að því að sennilega er þetta fyrsta skipti sem við íslendingar mótmælum einhverju, svo finnist. "Hei, hei, hei" eins og Mercedes Club syngja.
Ég fann fyrir samhygð með þessum bílstjórum. Ég var jú sjálfur að keyra vörubíl einu sinni, raunar í vinnu hjá ÍSTAKi á sínum tíma, en hvað um það.
Eins og áður sagði, vorum að ræða þessi mál, nokkrir vinnufélagar, ég var að vesenast með að kannski kæmist ég ekki í "bæinn" og á sýninguna sem ég var að fara á, í Borgarleikhúsinu. Öllum virtist sama um það. Þetta væri í fyrsta skipti sem einhver hópur íslendinga hafi brugðist við óréttlæti og mótmælt með afgerandi hætti svo eftir væri tekið. Hana nú. Vertu memm.
Orðræðan hélt áfram og það var tuggið ofaní mig að skilja aðstæður, skilja dæmið í heild. Já, já, já, Ég náði því. Elskan.
Aldrei áður svo ég muni, höfum við íslendingar mótmælt með þessum hætti. Aldrei.
Það sem vörubílstjórar eru að gera, er snilld. Þetta á áð hrista upp í okkur öllum. Við getum breytt nánast öllu ef við ef við stöndum saman. Öll. Við kunnum þetta bara ekki, lærum af Frökkum.
Bara ekki trufla MIG!
Skoðun #3, -sjá tvær fyrri..
Bloggar | 13.4.2008 | 09:15 (breytt kl. 21:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 11.4.2008 | 13:35 (breytt 12.4.2008 kl. 15:52) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)