19.05.08
Eins og ég greindi frá fyrir nokkrum bloggum síðan í -Daglega lífið -, er vitleysan með veginn og námuvinnsluna ekki að taka nokkurn enda. Það er svo sem engin spurning hver eigi gamla veginn, við höfum svo sem alltaf vitað að eftir að hann var lagður af, ættum við hann, því spyr ég:
Af hverju er fólk að koma sér í svona vandræði eins og Klæðning ehf. og undirverktaki þeirra (Berglín ehf.) er að gera?
Af hverju var ekki straks í upphafi og áður en þungaflutningar um veg okkar hófust, haft samband við okkur um málið?
Af hverju gera aðilar af þessari stærðargráðu, samning um kaup á þúsundum tonna af grjóti úr námu sem lokuð er inni af einkavegum án þess að hafa trygga flutningsleið með tæki og vinnuvélar til vinnslunnar til og frá og ekki síst, brottflutning efnisins sem þeir voru að kaupa og hafa skuldbundið sig til að afhenda?
Eftir að til árekstrar kom um daginn vegna lokunar á veginum af okkar hálfu vegna vanefnda verktaka (Berglín ehf.) á rykbindingu, kom forsvarsmaður þeirra, Baldur Bergmann Heiðarsson ásamt Herði í Galtarvík, og leitaði sátta. Hann (Baldur) var maður er kom vel fyrir, vel máli farinn og virtist alls trausts verður. Við (ég) gerðum með okkur handsalað samkomulag um, (þar sem hann fullyrti að framkvæmdum og flutningum af hans hálfu (Berglínar ehf.) yrði lokið fyrir 1. maí), að hann fengi að klára það sem eftir væri og hætta síðan. Hann skuldbatt sig til að vökva veginn áður en flutningar hæfust að morgni, jafnframt til að lagfæra skemmdir er orðið hafa á veginum vegna þessara flutninga með ofaníburði og eða heflun. Þá bauðst hann til að láta smíða og setja upp skilti er banna þungaflutninga á veginn. Mánudaginn 5. maí sl. hófst akstur að nýju, án rykbindingar. Nú var mér öllum lokið og lokaði veginum aftur, fyrir fullt og allt. Auðvitað hringdi hann og baðst afsökunar á að hafa ekki talað við mig fyrir helgi, málið væri að hann hefði verið bílafár og því ekki náð að klára á áðurnefndum tíma. Allt yrði búið ef vel gengi, fyrir hvítasunnu. Núna sagði ég bara NEI! finndu þér aðra leið!
Lögreglan kom, vegagerðin kom, það var býsna gestkvæmt en ekki kom Baldur, hef reyndar ekki heyrt í honum síðan.
Í vinnuna í dag hringdi svo forstöðumaður framkvæmda hjá Klæðningu ehf. í mig til að spyrja af hverju þessi vegur væri lokaður, enn ætti eftir að keyra þarna í burtu um 40 þúsund rúmmetra af grjóti. Já, sæll... -hann var raunar afar kurteis svo ég var það bara líka. Hann bauðst reyndar til að greiða fyrir afnot af veginum ef það myndi liðka fyrir einhverju? Að fá borgað fyrir að þola óþægindi sem maður vill alveg endilega vera án. Nei, það er ekki hægt. Það er bara móðgandi að bjóða slíkt eftir að vera búinn að gera viðkomendum fyllilega ljóst að við viljum ekki þungaflutninga um þennan veg. Peninga, nei. Við hefðum SJÁLF farið fram á slíkt ef það hefði verið málið. Bara hlægilegt en lýsir samt vel samtíma viðhorfinu. Undantekningin er kannski Landsvirkjun; „ef okkur vantar það, tökum við það." Að öðru leiti skírði bara út fyrir honum stöðuna. Málið dautt.
20.05.08
Málið dautt? nei, ekki alveg.
Í dag komu nefnilega í heimsókn til okkar húsmæðurnar frá Hlésey og Glóru. Auðvitað er þetta allt saman hið versta mál fyrir þær og þeirra fjölskyldur , nýbúnar að fjárfesta fyrir tugi miljóna í húsunum sínum er standa í um 100 metra fjarlægð frá margnefndri námu. Að sjálfsögðu stóðu þær og þeirra menn í þeirri trú er þau ákváðu að reisa sér þarna heimili að náman væri lokuð, allavega væri stórtekju þaðan lokið, kannski yrði þó sóttur stein og steinn til skrauts í garða. Þá fréttu þær að sjálfsögðu af símtalinu frá í gær, um að efnistöku þarna sé síður en svo lokið. Það voru klárlega váleg tíðindi. Nema, tilgangur þeirra með heimsókninni var bara að forvitnast um afstöðu okkar til málsins. Það er ljótt að segja það en afstaða okkar er í raun og veru afar einföld.
- 1. Þarna er um afar mikla skemmd á landi og náttúru svæðisins að ræða. Ef siglt er út á Hvalfjörðinn, undan þessum bæjum sést það best að ekki sé talað um úr lofti. Það er eins og Stór Risi hafi bitið stórt stykki úr holtinu.
- 2. Landeigandi Galtarvíkur er í fullum rétti til að ráðstafa landi sínu og „auðlindum" þess að vild, svo framarlega sem farið er að lögum. Svo er því miður í þessu tilfelli.
- 3. Því miður væntanlega í góðri trú, fengu þau ekki skriflegt að náman væri lokuð. Ég skil það vel, stundum er bara móðgandi að vera beðinn um slíkt. Staðreyndir lífsins eru stundum beiskar. Þú verður að hafa alla hluti er skipta máli skjalfesta og vottaða sama hver á í hlut.
- 4. Það er afar vandséð hvernig við getum með ákveðnum eða afgerandi hætti varið ábúendur Hléseyjar og Glóru gagnvart þessum vissulega óréttláta gjörningi. Eins og áður sagði er landeigandi námunnar í fullum rétti. Þetta er því afar erfitt mál.
- 5. Í þessu öllu fellst ákveðin pattstaða. Ef við leifum flutninga um „veginn minn." skemmist ekki „vegurinn þinn." Ef leifður er flutningur um „veginn þinn", skemmist „vegurinn minn." Þetta er einföldun á málinu.
- 6. Ef ákveðið hefur verið að selja meira efni úr þessari námu en þegar hefur verið unnið og náman sem slík orðin innilokuð af lokuðum vegum er til þriðja leið. Hver? Ekki mitt.
- 7. ATH! Í kvöld hringdi Hörður og kvaðst ekki kannast við að samningur um sölu á áður nefndum rúmmetrum (40þ.) á efni umfram það er þegar hefur verið unnið, sprengt og flutt, hafi verið gerður. ???? ?
Ef þú, ágæti lesandi þessa blogs hefur skoðun á málinu, þá endilega tjáðu þig í gegnum „athugsemdir" reitinn,- neðst til hægri undir færslunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.