Mér rifjaðist upp skemmtileg saga, úr fyrra bindi endurminninga Agnars Kofoed Hansen heitins, fv. lögreglstjóra og síðar flugmálstjóra. *(ss;Jóh. H.).
__________________________________
Ég fór einu sinni á Þingvöll með kínverskan sendimann frá Alþjóða-flugmálastofnuninni. Hann hét Chiang og var ættaður frá Hunan-fylki. Á leiðinni austur gerði ég gesti mínum nokkra grein fyrir eðli íslenskrar menningar. Ég sagði honum til dæmis að upp til sveita gæti hann rekist á sjálflærða bændur mælta á erlendar tungur og aðra sem skrifuðu um stærðfræði og náttúrufræði í virt erlend vísindatímarit og þýddu bækur úr rússnesku og grísku.Kínverjinn brosti vantrúaður.Við gengum til Lögbergs í fylgd bóndans á Þingvöllum.Taktu nú eftir, hvíslaði ég að vini mínum, Chiang. Hér er í för með okkur dæmigerður íslenskur bóndi. Athugull og greindarlegur. Reyndu að ávarpa hann á kínversku. Hann hefur áreiðanlega gaman af því.Chiang tók mig ekki alvarlega, brosti samt kurteislega. Gerðu það fyrir mín orð, bað ég. Ávarpaðu hann á kínversku. Chiang hló vandræðalega - lét svo tilleiðast í gamni. Kínverska hljómaði á Lögbergi. Bóndi lagði við hlustir, horfði til himins, hugsaði sig um andartak, -laut svo að Chiang og svaraði á kínversku: Suður-Hunan-mállýskan er nú ekki mín sterka hlið, þótt ég skilji hana vel. En það er gaman að fá tækifæri til að tala mál yðar.Ég gleymi aldrei hvernig Chiang varð við. Hann varð allur stífur, líkt og hann steinrynni; hann varð þannig í framan að ég hélt að hann væri að fá slag - og mér varð ekki um sel. -Bóndi á Þingvöllum var þegar þetta gerðist, séra Jóhann Hannesson, lengi trúboði í Kína." *(Jóhannes Helgi).
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.